Sex stjórnarmenn af níu í peningamálanefnd Englandsbanka greiddu atkvæði með 25 punkta stýrivaxtalækkun bankans þann 10. apríl síðastliðinn.

Tveir nefndarmenn vildu hins vegar halda vöxtum óbreyttum, á meðan einn kallaði eftir 50 punkta vaxtalækkun, að því er fram kemur í fundargerð nefndarinnar sem var gerð opinber í dag.

Þetta er í fyrsta skipti frá því í maímánuði árið 2006 sem nefndin klofnar í þrennt í afstöðu sinni til stýrivaxtaákvörðunar Englandsbanka.

Fjármálasérfræðingar segja þennan klofning koma nokkuð á óvart, en samkvæmt skoðanakönnun Dow Jones-fréttaveitunnar í síðustu viku spáðu hagfræðingar því að allir níu nefndarmennirnir hefðu stutt 25 punkta vaxtalækkun.

Skoðanaágreiningur peningamálanefndarinnar gefur til kynna að Englandsbanki muni vera mjög varkár þegar kemur að frekari stýrivaxtalækkunum. Til viðbótar við nýleg ummæli aðalhagfræðings bankans, Charlie Bean, sem ítrekaði áhyggjur bankans af undirliggjandi verðbólguþrýstingi, er fátt sem bendir til þess við lestur fundargerðarinnar að Englandsbanki muni lækka stýrivexti annan mánuðinn í röð í maí.

Alan Clarke, hagfræðingur BNP Paribas fyrir Bretland, segir að með birtingu fundargerðarinnar hafi dregið úr væntingum fjárfesta um vaxtalækkun í maímánuði – sú lækkun verður líkast til að bíða fram til júní.

Hins vegar er enn möguleiki á því að slæmar hagtölur birtist fram að næsta vaxtaákvörðunardegi bankans, sem gæti breytt því mati.