*

fimmtudagur, 20. janúar 2022
Innlent 10. mars 2021 15:42

6 falast eftir að veita lögfræðiráðgjöf

Fimm lögmannsstofur og ráðgjafafyrirtækið Deloitte hafa lýst áhuga á að veita lögfræðiráðgjöf við söluferli Íslandsbanka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sex fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að veita lögfræðiráðgjöf við sölu Íslandsbanka. Er um að ræða fimm lögmannsstofur; BBA Fjeldco, DRÁGGS ehf. (Advel lögmenn), Lex, Logos og Nordik lögfræðiþjónusta, auk endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækisins Deloitte. 

Greint er frá þessu á heimasíðu Ríkiskaupa, en frestur til að láta í ljós áhuga á að veita lögfræðiráðgjöf við söluferlið rann út í dag.

Íslandsbanki og Bankasýsla ríkisins, umsjónaraðila með 100% eignarhlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka, hyggjast ráða sameiginlega lögfræðiráðgjafa í tengslum við söluferli á bankanum. Annars vegar lögfræðiráðgjafa með sérþekkingu á íslenskum lögum, m.a. varðandi almennt útboð og skráningu hluta á skipulegum verðbréfamarkaði. Hins vegar lögfræðiráðgjafa með sérþekkingu á erlendum/alþjóðlegum lögum, m.a. er varða almennt útboð og skráningu hluta á skipulegan verðbréfamarkað þ. á m. varðandi bandarísk lög.