Vöruskiptahallinn í desember var óhagstæður um tæpa 26,6 milljarða króna að því er kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Fyrri bráðabirgðatölur Hagstofunnar gerðu ráð fyrir um 20 milljarða króna halla í desember líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um en það þýðir að hallinn er rúmlega sex milljörðum hærri en áður var áætlað.

Í desember voru fluttar út vörur fyrir 43,1 milljarð króna og inn fyrir 69,6 milljarða fob. Árið á undan nam vöruskiptahallinn 7,9 milljörðum á gengi þess árs.

Fyrir árið 2017 í heild er því uppsafnaður vöruskiptahalli 178,3 milljarðar króna reiknað á fob verðmæti. Innfluttar vörur námu 695,9 milljörðum en útfluttar 517,6 milljörðum.