Mailpile er íslenskt hugbúnaðarverkefni sem hefur safnað yfir 6 milljónum króna á innan við viku. Markmið verkefnisins er að skrifa hugbúnað sem bætir friðhelgi einkalífs fólks á netinu með því að einfalda notkun dulritunar í tölvupósti. Verkefnið stefnir einnig að því að bjóða upp á raunhæfan valkost við miðstýrð tölvupóstkerfi Google, Microsoft og annarra bandarískra stórfyrirtækja. Féð sem safnast hefur kemur frá einstaklingum víðsvegar um heim sem hafa styrkt herferð á fjáröflunarvefnum Indiegogo af því er fram kemur í fréttatilkynningu Mailpile.

Mailpile er hugarfóstur tölvunarfærðingsins Bjarna Rúnars Einarssonar, en honum til halds og trausts eru Píratinn Smári McCarthy og Brennan Novak. Hópurinn stefnir að því að safna 100.000 Bandaríkjadollurum og nýta féð til að fjármagna eins árs vinnu við þróun þess.

„Áherslur verkefnisins á friðhelgi einkalífs og að auka sjálfstæði fólks sem notar tölvupóst hefur fallið í mjög góðan jarðveg hjá tölvunotendum um allan heim, meðal annars vegna uppljóstrana Edwards Snowdens um víðtækt eftirlit bandarísku öryggisstofnunarinnar með netnotkun almennings. Verkefnið var kynnt við góðar undirtektir á OHM 2013 ráðstefnunni í Hollandi og fréttirnar fóru í framhaldinu sem eldur í sinu um Twitter samræðuvefinn,“ segir í fréttatilkynningu frá Mailpile.