Evran hefði verið 117 í stað 179 króna eftir hrunið ef bankarnir hefðu ekki telkið stöðu gegn krónunni. Íslenska krónan féll ekki eingöngu út af beinum kaupum bankanna á gjaldeyri fyrir krónur, þó þau hafi vegið  langmest.  Það eru einnig óbein áhrif sem spiluðu inni í fall krónunnar.  Þessi óbeinu áhrif eru einnig að stórum hluta afleiðingar af gjörðum íslensku bankanna og þá fyrst og fremst hröð og óhófleg stækkun þeirra á erlendum mörkuðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Bjarna Kristjánssonar gjaldeyrissérfræðings um orsök og fall íslensku krónunnar.

Kastljós Sjónvarpsins gerði skýrslu Bjarna að umræðuefni í kvöld en Viðskiptablaðið hefur hana einnig undir höndum. Skýrslan hefur verið seld ýmsum þeim aðilum sem hyggjast sækja mál á hendur bankanna vegna gjaldeyrisviðskipta þeirra í aðdraganda hrunsins.

Ef reiknað er út hverning gengi krónunnar hefði þróast ef bankarnir hefðu haldið sig innan 30% gjaldeyrisjöfnuðar og allt annað hefði verið óbreytt. Þ.e.a.s. ef Seðlabankinn hefði ekki keypt neinn gjaldeyri en gjaldeyrisjöfnuður bankanna hefði verið óbreyttur þá hefði GVT þann 6. október 2008 verið 114,12 í stað 231 og  Evran hefði verið 117 í stað 179 króna.  M.ö.o 60% af hruni krónunnar má rekja beint til uppkaupa bankanna á gjaldeyri segir Bjarni í niðurstöðum sínum. Er þá miðað við það tímabil sem uppkaupin standa yfir eða frá 31.10. 2005 til 06.10. 2008.