"Við fórum af stað fyrir all nokkrum vikum með Glitni að leita hlutafjár til að geta haldið áfram með vaxtaplön okkar í útlöndum. Það leiddi af sér þessar viðræður sem eru komnar í þetta ferli. Það er svo sem ekkert frágengið í þessum málum en er þó samt í ágætum ferli," segir Skúli Þ. Gunnsteinsson, forstjóri Capacent International um hugsanlega innkomu Salt Investment inn í félagið.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í fyrradag hefur Salt Investment, félag í eigu Róberts Wessmann, til skoðunar kaup á allt að 20% hlut í Capacent í samstarfi við Glitni.

"Þetta eru mjög sterkir aðilar og menn ná vel saman um framtíðarsýn og vaxtastefnu félagsins," segir Skúli. Framtíðarverkefnin eru fjárfestingar erlendis og uppbygging á starfsemi utan Íslands.

Capacent vinnur nú að verkefni í Danmörku og gangi það vel verður það þróað áfram og hugsanlega horft í framhaldinu til fleiri markaða. "Við erum að byggja upp Capacent í Danmörku sem samanstendur af stjórnenda- og upplýsingatækniráðgjöf, rannsóknum og ráðningarstarfsemi, sem eru sömu svið og við störfum á heima. Það stefnir í að 60% af okkar starfsemi á þessu ári verði í Danmörku," segir Skúli.

Capacent í Danmörku er nú þegar orðið stærra en félagið á Íslandi. Skúli segir að reksturinn hafi gengið vel á síðasta ári og horfur séu góðar fyrir starfsemina í Danmörku.