Valitor hóf nýlega sókn inn á Bretlandsmarkað með útgáfu rafrænna greiðslukorta fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og er fyrirtækið, að sögn Viðars Þorkelssonar forstjóra, fyrsta íslenska kortafyrirtækið sem ræðst í útgáfu greiðslukorta erlendis.

„Við vinnum þetta verkefni í samstarfi við traustan breskan aðila og erum að gefa út fyrirfram greidd kort fyrir aðila í ferðaþjónustu í Bretlandi. Þetta virkar þannig að hótel og flugfélög nota þessi kort í viðskiptum sín á milli. Þetta er svokölluð B2B-lausn og liðkar fyrir viðskiptum á milli fyrirtækja,“ segir Viðar, en að hans sögn er þetta fyrsta verkefni fyrirtækisins á þessu sviði.

„Við væntum þess að fjölmörg önnur verkefni muni fylgja í kjölfarið og erum bjartsýn á að þetta svið kortaútgáfu muni skila auknum vexti til framtíðar,“ segir hann.

Viðar segir þetta verkefni þó fráleitt vera hið eina sem Valitor tekst á við utan landsteinanna.en fyrirtækið var árið 2003 eitt það fyrsta sem fékk heimild til færsluhirðingar vegna netviðskipta í Evrópu. Markaðssóknin erlendis byggir í grunninn á þessum færsluhirðingum auk áðurnefndrar útgáfu rafrænna korta að hans sögn.

„Í dag eru um 60% af tekjum félagsins af viðskiptum við erlenda aðila,“ segir Viðar.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, er í viðtali við Viðskiptablaðið í þessari viku. Þar ræðir hann m.a. um samráðsmálið, málssókn Kortaþjónustunnar á hendur Valitor og framtíðarhorfur félagsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.