Um 60 manns sóttu fyrirlestur Heiðars Más Guðjónssonar, athafnamanns, um sögu og framtíð þjóðargjaldmiðla sem haldinn var á vegum Frjálshyggjufélagsins í upphafi vikunnar.

Heiðar Már rakti sögu gjaldmiðla í stuttu máli og útskýrði sögu þjóðargjaldmiðla og tilveru fyrstu seðlabankanna á borð við Wisselbank í Hollandi, Riksbank í Svíþjóð og Englandsbanka.

Þá gagnrýndi Heiðar Már þá peningahagfræði sem mest er fjallað um og sagði  hana úrelta. Þar vísaði Heiðar Már m.a. til þess að rökin fyrir þjóðargjaldmiðli væru gjarnan að ná jafnvægi í utanríkisviðskiptum auk þess hann fjallaði um peningaprentunarvald ríkja – sem iðulega væri misnotað af stjórnmálamönnum. Auk þess sagði Heiðar Már algengt að ríki í kreppu höguðu peningastefnu sinni andstætt viðskiptalöndum til þess að búa til hagnað af viðskiptum.

Í fyrirlestri sínum benti Heiðar Már einnig á að smærri ríki gætu ekki haft bæði frjálst flæði fjármagns og sjálfstæða peningastefnu.

Loks fjallaði Heiðar Már um þá skoðun sína að Ísland taki einhliða upp annan gjaldmiðil en krónu en hann, ásamt Ársæli Valfells, háskólalektor, hefur talað fyrir því lengi.

Eftir fyrirlesturinn svaraði Heiðar Már spurningum viðstaddra og urðu miklar umræður um gjaldeyrismál og peningastefnur í kjölfarið.