Í dag er stærsti gjalddagi krónubréfa frá upphafi en útgáfa krónubréfa á sér nú orðið tveggja ára sögu hér á landi. Alls falla 60 milljarðar króna á gjalddaga í dag. Um einstakan útgefanda er að ræða að baki allri útgáfunni, þýska þróunarsjóðinn KfW sem er langstærsti útgefandi krónubréfa. Sérfræðingar telja að hluti útgáfunnar hafi nú þegar verið framlengdur en um miðjan ágúst hljóp vaxtarkippur í útgáfuna og hafa síðan þá ný krónubréf komið til að andvirðri tæplega 30 milljarða króna. Sérfræðingar eru ekki sammála um við hverju megi búast í dag, á gjalddaga, en flestir telja þó líklegra en ekki að þessi stóri gjalddagi muni líða hjá án teljandi áhrifa á gengi krónunnar.


"Þó að við sjáum ekki áhrif gjalddaganna á gengi krónunnar í dag er þar með ekki sagt að þeir hafi engin áhrif," segir Þórhallur Ásbjörnsson, sérfræðingur greiningardeildar Kaupþings. Hann segir að áhrifin dreifist yfir lengri tíma enda sé gjaldeyrismarkaðurinn framsýnn markaður. Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá greiningu Glitnis, bendir hinsvegar á að sú hætta sé alltaf fyrir hendi að gjalddagarnir og það útflæði gjaldeyris sem þeim tengist virki til veikingar krónunnar. "Þess vegna er ekki hægt að útiloka að gjalddagarnir hafi einhver áhrif til veikingar krónunnar," segir hann. Björn Rúnar Guðmundsson forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans býst hinsvegar ekki við miklum hreyfingum. "Þau áhrif sem þessir gjalddagar hafa á gengi krónunnar eru nú þegar komnir fram. Það má nú nánast gefa sér það að við séum komin fyrir horn með þennan jöklabréfastafla sem fellur á gjalddaga," segir Björn Rúnar.


Mikið var ritað og rætt um að dagar vaxtamunarviðskipta væru á enda í kjölfar lausafjárþurrðar og vaxandi áhættufælni fjárfesta í kjölfar undirmálslánakrísunnar í Bandaríkjunum. Ben Bernanke, seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, kvað þann dauðadóm í kútinn í gær með því að lækka stýrivexti í Bandaríkjunum um 50 punkta. Í kjölfarið lækkaði gengi japanska jensins og hávaxtamyntir hækkuðu sem gefur til kynna að lyst fjárfesta á vaxtamunarviðskiptum á borð við krónubréfin hafi verið endurvakin. "Það má búast við því að áhugi fjárfesta á krónubréfum muni haldast lengi enn enda hefur vaxtamunurinn á milli Bandaríkjanna og Íslands nú aukist á ný," segir Björn Rúnar Guðmundsson.