Heildarviðskipti með hlutabréf í maímánuði námu 59,6 milljörðum króna eða 2,9 milljörðum á dag. Það er 34% hækkun frá fyrri mánuði þegar viðskipti með hlutabréf námu 2,2 milljörðum á dag. Þetta er 84% hækkun á milli ára en viðskipti í maí 2015 námu 1.623 milljónum á dag.

Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group (ICEAIR), 16,3 milljarðar, Marel (MARL), 7,9 milljarðar, Eimskipafélags Íslands (EIM), 5,1 milljarðar, Haga (HAGA), 4,9 milljarðar og Eikar fasteignafélags (EIK), 3,8 milljarðar.

Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 2,3% á milli mánaða og stendur nú í 1.829 stigum. Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina eða 27,1%, Íslandsbanki með 21,7%, og Landsbankinn með 17,8%. Þetta kemur fram í yfirliti Kauphallarinnar.