Marel skilaði 9,6 milljón evra hagnaði á öðrum ársfjórðungi sem jafngildir 1,3 milljörðum króna. Til samanburðar nam hagnaður Marels á öðrum ársfjórðungi árið 2021 23,3 milljörðum evra. Frjáls sjóðsstreymi var neikvætt sem nemur 7,9 milljónum evra saman borið við 54,6 milljónum evra á sama tíma í fyrra. EBIT fjórðungsins nam 25 milljónum evra samanborið við 38,6 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Skuldir félagsins námu 1,722 milljónum evra samanborið við 982 milljónir evra í lok árs 2021. En fyrr á árinu festi Marel kaup á Wenger Manufacturing LLC og Sleegers. Eftir kaupin á Wenger jókst skuldahlutfall félagsins (nettó skuldir/EBITDA) úr 0,8 á öðrum ársfjórðungi síðasta árs í 3,8 í lok júní þessa árs.

„Viðburðaríkur ársfjórðungur er að baki þar sem við sjáum ný met í pöntunum sem koma inn á hærri verðum en áður sem styður við markmið um aukna framlegð á næstu fjórðungum. Pantanir námu 472 milljónum evra, á sama tíma eru 397 milljónir evra í tekjur með 6,3% EBIT framlegð sem er óviðunandi,“ segir Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel.

Sjá einnig: Marel fækkar starfsfólki

Fyrr í mánuðinum fækkaði Marel starfsfólki sínu um 5% á heimsvísu en hluti af þeim fækkunum var fólk að hætta starfi og ekki var gripið til ráðninga í stað þeirra. „Eins og fram kom í tilkynningu okkar til kauphallar í síðustu viku, höfum við þegar gripið til aðgerða til að lækka kostnaðargrunn félagins með 5% fækkun starfsfólks. Ákvörðun sem þessi er alltaf erfið og við munum gera okkar besta til að styðja við þá starfsmenn sem frá hverfa.“ segir Árni.

Framtíðarhorfur

Marel stefnr að 12% árlegum meðalvexti yfir tímabilið 2017-2026 en gera má ráð fyrir að reksturinn geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári. Þá gerir félagið ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma en undanfarin fimm ár hefur vöxtur markaðar verið undir lengri tíma markaðsvexti. En gert er ráð fyrir að vöxtur á tímabilinu 2021-2026 verði 6-8% vegna uppsafnaðar fjárfestingarþarfar. Þá jafnframt gerir Marel ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.