Mikill vöxtur hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á síðustu árum og í dag er greinin orðin ein af undirstöðugreinum í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir mikinn vöxt í ferðaþjónustunni og mikla fjölgun ferðamanna til Íslands hefur það ekki skilað sér í formi tekna til ríkisins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins á Bifröst um umfang skattsvika í ferðaþjónustu og leiðir til úrbóta. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi í morgun.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, flutti upphafsorð á fundinum og lýsti yfir ánægju sinni með framtakið. Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, kynnti því næst Rannsóknarstofnun atvinnulífsins áður en Árni Sverrir Hafsteinsson og Jón Bjarni Steinsson sérfræðingar fjölluðu um niðurstöður skýrslunnar.

Í skýrslunni kemur fram að skattsvik í ferðaþjónustu sé stóraukið vandamál á Íslandi og um 60% svarenda í rannsókninni telja að samkeppnisstaðan á Íslandi sé mjög bjöguð vegna skattsvika.

Veltufrávikið að aukast

Í skýrslunni var lögð sérstök áhersla á gistiþjónustu og veitingasölu. Í báðum tilvikum er veltufrávik mikið og hefur verið að aukast síðustu ár. Veltufrávik er bil milli veltu greinarinnar samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum og uppreiknaðs söluverðmætis. Veltufrávik í gistiþjónustu fór frá 8% árið 2011 í 17-19% árið 2013. Veltufrávik í áfengissölu mældist 42% árið 2013. Vegna þessa hafa tekjur til ríkissjóðs frá hverjum ferðamanni minnkað verulega.

Helstu vandamál í ferðaþjónustugeiranum er gífurlega flókið virðisaukaskattskerfi auk mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða. Leyfislausir aðilar borga eðli málsins samkvæmt ekki virðisaukaskatt auk þess sem eftirlit með þeim er ábótavant. Bilið milli virðisaukaskattsþrepa einnig talið mikið vandamál. Bilið er mikið  og gefur það möguleikann á því að söluaðilar færi söluvöru sína í lægra virðisaukaskattsþrep. Áfengir drykkir bera til dæmis 25,5 % virðisaukaskatt en einungis brot af veltu veitingastaða, kaffihúsa og hótela er í 25,5% virðisaukaskattsþepi. Því virðist sem hvati sé til staðar að færa ákveðnar vörur niður í 7% virðisaukaskattþrep.

Einnig kemur fram í skýrslunni að vaxandi vandamál í ferðaþjónustu sé að launþegar geri sífellt meiri kröfu að fá greitt svart fyrir vinnu sína. Mikil eftispurn er eftir starfsfólki á háannatímum ferðaþjónustu og setur þessi krafa söluaðila í erfiða stöðu.