Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði af sér 111 tillögum í nóvember í fyrra. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gerð grein fyrir stöðu mála. Þar kemur fram að í byrjun þessa árs hafi verið settur á laggirnar samráðshópur á vegum allra ráðuneyta til að vinna að framkvæmd þessara tillagna.

Hópurinn er leiddur af fulltrúum forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í frumvarpinu kemur fram að af 111 tillögum séu 60 í vinnslu og 22 í forathugun. Framkvæmd sjö tillagna er lokið, þrjár voru samþykktar sem lög frá Alþingi í vor og ein er í þinglegri meðferð. Vinna hefur ekki hafist í tengslum við 18 tillögur.