Landsbankinn í Lúxemborg, sem starfaði fyrir hrun, tengdist minnst 404 félögum sem fjallað er um í þeim gögnum sem lekið var í tengslum við lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Bankinn er sá áttundi umfangsmesti á listanum, hvað varðar fjölda félaga. Að minnsta kosti 600 Íslendingar tengjast um 800 aflandsfélögum. Þetta kom fram í Kastljósinu í kvöld.

Nöfn fjögurra núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtoga í Evrópu er að finna í gögnunum. Auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru þetta Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, Bidzina Ivanshivili, fyrrverandi forseti Georgíu og Pavlo Lazarenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu. Þá tengist hópur manna í kringum Vladimír Pútín slíkum félögum ásamt knattspyrnumanninum Lionel Messi, svo dæmi séu tekin.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar fjalla um lekann á vefsíðum sínum í kvöld. Þar á meðal eru BBC , The Guardian , SVT , DR og Aftenposten .