Fyrstu þrjár vikurnar í nóvember voru 600 veðköll (e. margin call) hjá 6 af stærstu fjármálafyrirtækjunum (á samstæðugrunni), en einungis var í einu tilviki um þvingaða sölu að ræða. Þetta kom fram í ræðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Jónasar Fr. Jónssonar, en ársfundur eftirlitsins stendur nú yfir.

Jónas benti á í ræðu sinni að við veðköll, eins og í öðrum tilvikum, er mikilvægt að gætt sé jafnræðis fjárfesta og sambærileg tilvik séu meðhöndluð á sambærilegan hátt og armslengdarsjónarmiða gætt. Jafnframt hvatti hann fjármálafyrirtækin til að sýna varfærni í að slaka verulega á kröfu um tryggingaþekju þó svo að verð hlutabréfa hafi almennt lækkað.

Tryggingarþekja beinna útlána með veði í verðbréfum hefur aukist á milli ára og veðsetningarhlutfall lækkað sem gefur til kynna að fjármálafyrirtækin hafi haft borð fyrir báru ef markaðir myndu lækka.

Í ræðu forstjórans kom fram að markaðsverðbréfaeign fjármálafyrirtækja fór vaxandi fyrri hluta árs eftir að hafa dregist nokkuð saman á árinu 2006. Um mitt þetta ár nam stöðuáhætta markaðsskuldabréfa í eigin áhættu um 35% af eiginfjárgrunni og hlutabréfa í eigin áhættu um 36% af eiginfjárgrunni. Hér er um eignalið að ræða sem gæta þarf að, einkum ef seljanleiki verðbréfa minnkar og verð þeirra lækkar.

Hlutfall útlána til verðbréfakaupa, þ.e. heildarfjárhæð beinna lána og framvirkra samninga, af eiginfjárgrunni jókst talsvert og var um 126% hjá viðskiptabönkunum og 42% hjá stærstu sparisjóðunum. Fjármálaeftirlitinu reiknast svo til að markaðsvirði þeirra hlutabréfa sem veðsett eru með þessum útlánum og lögð til tryggingar vegna framvirkra samninga og skráð eru á OMX nemi um 36% af heildarmarkaðsvirði þeirra félaga sem skráð voru á OMX á þriðja ársfjórðungi 2007.