*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 21. maí 2021 18:05

6.000 milljarða til að binda endi á Covid

AGS telur að hægt sé að binda endi á Covid faraldurinn um mitt næsta ár með því að bólusetja 60% heimsbúa.

Ritstjórn
epa

Heimurinn gæti „bundið enda á faraldurinn“ um mitt næsta ár með því að bólusetja 60% heimsbúa, samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Stofnunin áætlar að þetta muni kosta 50 milljarða dala eða um 6 billjónir (þúsund milljarða) króna, sem samsvarar um tvöfaldri landsframleiðslu Íslands.

Í skýrslu AGS segir að þjóðir með nægjanlega forða af bóluefni hafi efni á að gefa um einn milljarð skammta í ár án þess að þurfa að hörfa frá bólusetningu á eigin landsmönnum.

AGS áætlar að ásamt fjármögnun, gætu framlög af Covid-19 bóluefni bundið enda á farsóttinn fyrr, bjargað milljónum lífa og skilað rúmleg níu billjóna dala ábata fyrir hnattræna verga landsframleiðslu fyrir árið 2025.

Í skýrslunni segir að 50 milljarða dala fjárhæðin sé örsmá í samanburði við áætlaðar 16 billjóna dala stuðningsaðgerðir stjórnvalda víðs vegar um heim til heimila og fyrirtækja frá því að faraldurinn hófst. Sérfræðingar í heilbrigðismálum telja þó að helsta hindrunin á aukinni bólusetningu sé ekki fjármögnun, heldur flutningastjórnun og pólitík, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

„Án tafarlausra aðgerða, munu nýmarkaðsríki og þróunarhagkerfi þurfa að bíða til loka 2022 eða síðar til að ná tökum á faraldrinum. Það verður of seint, ekki bara fyrir þessar þjóðir heldur fyrir heiminn,“ segir í skýrslunni. AGS telur að heimurinn ætti að stefna á 40% bólusetningarhlutfall fyrir lok þessa árs og að minnsta kosti 60% um mitt næsta ár.