MMR kannaði viðhorf Íslendinga til ákvörðunar forseta Íslands um að hafna nýjustu Icesave lögunum samþykkis.

Af þeim sem tóku afstöðu voru 60,7% sem sögðust styðja ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki nýjustu Icesave lögin og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR sem send var fjölmiðlum í kvöld.

Þá voru 57,7% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust myndu kjósa með lögunum kæmu þau til atkvæðagreiðslu í dag, það er að samþykkja lögin.

Af niðurstöðu könnunarinnar sést að áberandi andstaða var við ákvörðun forsetans um að staðfesta ekki nýju Icesave lögin meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, en 74,3% þeirra kváðust ekki styðja ákvörðun forsetans. Á hinn bóginn voru 76,5% þeirra sem sögðust ríkisstjórninni andvígir sem kváðust styðja ákvörðun forsetans.

Ef horft er til afstöðu til komandi Icesave kosninga eftir stuðningi við stjórnmálaflokka má sjá að helmingur Sjálfstæðismanna (49,9%) hyggst kjósa með Icesave lögunum samanborið við 37,4% Framsóknarmanna, 83,1% Vinstri-grænna og 96,7% Samfylkingarfólks.

Sjá könnunina í heild sinni.