Nýjasta útgáfa tölvuleiksins umdeilda Grand Theft Auto (GTA) IV er á góðri leið með að slá sölumet sína fyrstu viku á markaði. Fyrsta daginn seldust 609,000 eintök sem er talið skapa framleiðanda leiksins tekjur upp á tæplega 50 milljónir dollara. Kostnaðurinn við framleiðslu og þróun leiksins nam um 100 milljónum dollara, að því er kemur fram í frétt BBC.

Fyrra sölumetið á einum degi átti síðasta útgáfa leiksins, en þá seldist rétt rúmlega hálf milljón eintaka á fyrsta sólarhringnum í október 2004.

Notendur hafa kvartað undan göllum í leiknum, sem á það til að frjósa stöku sinnum. Notendur bæði Playstation 3 og Xbox 360 hafa orðið var við þessi vandamál. Rockstar, framleiðandi leiksins, segir vinnu hafna við að kippa þeim göllum sem kunna að vera á leiknum í liðinn.

Þrátt fyrir vandamálin sem hafa gert vart við sig hlýtur leikurinn hæstu einkunn víðast hvar.