Hagnaður af rekstri tryggingafélagsins VÍS nam 145 millj­ónum króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 733 milljóna króna hagnað fyrir sama tímabil í fyrra. Það gerir 80% minni afkomu á milli ára. Afkoman er undir væntingum stjórnenda félagsins þrátt fyrir að bókfærð iðgjöld innanlands hækkuðu um 11% frá sama tímabili í fyrra.

Stærstu ástæðurnar fyrir afkomumuninum frá því í fyrra voru mun lægri fjárfestingartekjur og aukin tjónatíðni. Fjárfestingartekjur ársfjórðungsins námu 435 milljónum króna samanborið við 1.113 milljóna króna tekjur á sama tíma í fyrra. Það gerir 61% lækkun á milli ára.

Ekki eðlilegt ástand

Að sögn Sigrúnar Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, litast fjárfestingartekjurnar af slæmri afkomu á erlendum mörkuðum og nokkuð minni tekjum á innlendum mörkuðum. Styrking krónunnar og slæmt gengi á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur leitt til þess að VÍS hefur selt erlendar eignir á tímabilinu.

Sigrún segist ekki búast við því að afkoman af fjárfestingarstarfseminni verði jafn góð og hún var í fyrra. „Þetta er ekki eitthvað sem þú getur vænst að gerist á hverju ári,“ segir hún. „Þú rekur ekki tryggingafélög með þeirri arðsemi sem fjárfestingarnar skiluðu á síðasta ári. Það er ekki eðlilegt ástand, þannig að maður þarf að líta yfir lengra tímabil og leggja það til grundvallar í rekstrinum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .