61,1% svarenda könnunar MMR um afstöðu til alþingiskosninga vilja kosningar innan 6 mánaða en 14,4% svarenda telja að efna eigi til alþingiskosninga í lok kjörtímabilsins.

Aftur á móti telja 30,8% svarenda að kjósa eigi innan þriggja mánaða og 30,3% að kosningar eigi að fara fram eftir 3-6 mánuði, Hins vegar telja 15,2% að kjósa eigi eftir 6-12 mánuði og 9,3% segja að réttast væri að efna til næstu alþingiskosninga árið 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR.

Þá kemur fram að verulegur munur er á afstöðu svarenda til tímasetningar næstu alþingiskosninga eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.

Flestir stuðningsmanna Vinstri grænna (55,9%) vilja kjósa innan þriggja mánaða. Flestir stuðningsmanna Framsóknarflokks (43,4%) og Samfylkingar (39,5%) vilja kosningar eftir 3-6 mánuði, en flestir stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins (55,2%) vilja kjósa í lok kjörtímabilsins (árið 2011).

Spurt var: Hvenær telur þú réttast að efna næst til alþingiskosninga?

Svarmöguleikar voru: ‚Innan 3 mánaða‘, ‚eftir 3-6 mánuði‘, ‚eftir 6-12 mánuði‘, ‚á árinu 2010 (eftir ár)‘ og ‚í lok núverandi kjörtímabils (árið 2011)‘.

Samtals tóku 92,1% afstöðu til spurningarinnar.