Vinnumálastofnun bárust 3 tilkynningar um hópuppsagnir í september. Heildarfjöldi þeirra sem sagt var upp er 113 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en um er að ræða tilkynningar um uppsagnir í mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi.

Þeir starfsmenn, sem sagt hefur verið upp, koma flestir til með að missa vinnuna í janúar 2012. Ástæður uppsagnanna eru sagðar endurskipulagning og verkefnaskortur.

Alls hafa Vinnumálastofnun borist tilkynningar um uppsagnir 613 manns í hópuppsögnum á árinu 2011, mest í mannvirkjagerð eða 215 manns. Þá hefur tæplega 90 manns verið sagt upp sem störfuðu við fræðslustarfsemi og tæplega 80 manns sem áður störfuðu við verslun. Þá hefur tæplega 60 manns verið sagt upp í fjármálageiranum á þessu ári.