Fjárfesting í ferðaþjónustu nam rúmlega 62 milljörðum króna í fyrra samkvæmt tölum frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Í heild nam atvinnuvegafjárfesting um 300 milljörðum króna sem þýðir að ferðaþjónustan var með um fimmtung af heildinni. Mest var fjárfesting í hótel- og veitingahúsarekstri, eða um 27 milljarðar króna. Þar á eftir kom flugrekstur með 16 milljarða. Nettó fjárfestingar hjá bílaleigum og ferðaskipuleggjendum nam um 19,5 milljörðum króna í fyrra.

Í fyrra komu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna til landsins, sem var 30% aukning frá árinu á undan. Spár gera ráð fyrir að um 2 milljónir erlendra ferðamanna muni sækja Ísland heim á þessu ári. Samtök ferðaþjónustunnar reikna með að á þessu ári muni fjárfesting í hótel- og gistirýmum nema um 20 milljörðum króna, sem rímar við spá Greiningar Íslandsbanka frá febrúar. Spáir bankinn því að fjárfestingin í þessum geira verði einnig um 20 milljarðar á næsta ári en síðan muni hún lækka niður í 11,6 milljarða árið 2018 og 3,2 milljarða árið 2019. Í skýrslu bankans er því enn fremur spáð 22,5 milljarða króna fjárfestingu hjá bílaleigum á árinu.

Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur hjá Samtökum ferðaþjónustunnar,  segir erfitt að svara því hvort fjárfesting í ferðaþjónustu og þá sérstaklega hótelgeiranum sé að ná hámarki núna. Fjölgun erlendra ferðamanna milli ára sýni að þörf sé á þessari fjárfestingu og ef aukningin verði svipuð næstu ár muni áfram þurfa að fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .