Lánasjóður sveitarfélaga skilaði 795 milljóna króna afgangi á síðasta ári sem var um 62 milljónum lægri en árið á undan. Samkvæmt tilkynningu vegna uppgjörsins skýrist breytingin milli ára helst af lægri ávöxtun á eigið fé, lægri gjaldeyrismun og auknum kostnaði í tengslum við sérfræðiráðgjöf og skuldabréfaútgáfu.

Hreinar vaxtatekjur námu 982 milljónum króna og drógust saman um 31 milljón. Aðrar rekstrartekjur námu 27 milljónum og lækkuðu um 14 milljónir og meðan almennur rekstrarkostnaður fór úr 196 milljónum í 214 milljónir.

Heildareignir sjóðsins námu 117 milljörðum í árslok og jukust um 11,6 milljarða milli ára. Heildarútlán sjóðsins námu 110,2 milljörðum og jukust um 11,2 milljarða.

Eigið fé var 18,3 milljarðar í lok ársins en vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 70% en var 77% í árslok 2018.