Aztiq, fjárfestingafélag leitt af Róberti Wessman ásamt félaginu Innobic Asia hafa fest kaup á leiðandi hlut í Lotus Pharmaceutical sem skráð er á markað í Tævan og félaginu Adalvo af Alvogen.

Kaupverðið er um 475 milljónir dollara eða um 62 milljarðar króna. Kaupin eiga sér stað Aztiq II HoldCo. Í tilkynningunni segir að samningurinn er meðal þeirra stærstu sem gerðir hafa verið í lyfjageiranum á þessu ári.

Innobic er hluti af tælensku fyrirtæksamstæðunni PTT Group sem er í meirihluta eigu tælenska ríkisins.

„Með kaupunum verður Aztiq II HoldCo leiðandi hluthafi í Lotus Pharmaceutical og eignast Adalvo að fullu. Aztiq, með Róbert Wessman í broddi fylkingar, annast rekstur Aztiq II HoldCo næstu þrjú árin. Þá verður Róbert Wessman áfram stjórnarformaður Lotus. Stefnt að áframhaldandi þróun og vexti Lotus og Adalvo um allan heim. Innobic og Aztiq búa sameiginlega yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af rekstri og uppbyggingu á lyfjafyrirtækjum. Það á eftir að nýtast Lotus og Adalvo," segir i tilkynningu um málið.

Aztiq keypti einnig hluti af Alvogen í Bandaríkjunum

Aztiq er fyrir meðal stærstu hluthafa í Alvogen með um 30% hlut. Meirihlutaeigendur Alvogen eru CVC Capital Partners, Temasek Holdings sem keyptu hlutinn árið 2015 en þá var Alvogen í heild metið á um 270 milljarða króna samkvæmt fréttum frá þeim tíma . Alvogen verður áfram stærsti hluthafi Alvogen US, dótturfélagsins í Bandaríkjunum en Aztiq keypti 17% hlut í starfseminni í Bandaríkjunum í sumar. Alvogen seldi einnig árið 2019 starfsemi félagsins í Mið- og Austur- Evrópu . Þá er Alvogen áfram næst stærsti hluthafi systurfélagsins Alvotech á eftir Aztiq en stefnt er að skráningu Alvotech á markað á næstu misserum.