Gríska hagkerfið dróst saman um 6,2% á öðrum ársfjórðungi. Þetta er fimm árið í röð sem samdráttar gætir. Þetta jafngildir samdrætti í tuttugu ársfjórðunga. Almennt er sagt að þegar hagkerfi hefur dregist saman í tvo ársfjórðunga í röð ríki kreppa í viðkomandi landi. Þetta er örlítill bati á milli fjórðunga en samdrátturinn nam 6,5% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Reiknað er með 6,9% samdrætti á árinu öllu.

Staðan á Grikklandi er eftir því slæm. Landið hefur rambað á barmi gjaldþrots um langt skeið þrátt fyrir að alþjóðlegir lánardrottnar landsins hafi snúið bökum saman og lækkað skuldaklafa ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið lánað stjórnvöldum háar fjárhæðir.

Atvinnuleysi er þrátt fyrir þetta með því hæsta á evrusvæðinu en 23,1% þjóðarinnar mælir göturnar. Meira en helmingur ungs fólks á aldrinum 15 til 24 er án atvinnu. Gert er ráð fyrir að aðhaldsaðgerðir grískra stjórnvalda sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr ríkisútgjöldum muni leiða til aukins atvinnuleysis.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Chris Williamson, aðalhagfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu Markit, að hagtölurnar komi ekki á óvart. Hann segist í samtali við fréttastofuna binda vonir við að botninum hafi verið náð á fyrri hluta árs og muni gríska hagkerfið snúa til betri vegar nú þegar halli að hausti.