Verðbólga í Bretlandi mældist 6,2% í febrúar og hefur ekki verið meiri í þrjátíu ár, síðan í marsmánuði árið 1992 þegar hún mældist 7,1%. Verðbólgan hækkaði um 0,7% frá því í janúar þegar hún mældist 5,5%. Þetta kemur fram í frétt hjá The Times.

Verðbólgan í Bretlandi hefur nú mælst fyrir ofan 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka sjö mánuði í röð. Hagfræðingar höfðu spáð 5,9% ársverðbólgu í febrúar. Englandsbanki telur að verðbólgan verði umfram 10% á þessu ári.

Sjá einnig: Englandsbanki hækkar vexti í 0,75%

Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur hækkað vexti um 65 punkta á skömmum tíma. Fyrst úr 0,1% upp í 0,25% í desember, svo úr 0,25% upp í 0,5% í janúar og loks úr 0,25% í 0,5% í febrúar.

Hækkandi orkuverð hefur leitt verðbólguna í Bretlandi, eins og á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum. Árshækkun á rafmagnsverði var um 19% í febrúar, en hækkun á gasi var um 28% á milli ára.