Bankasýsla ríkisins hefur skilað inn stöðuskýrslu um fyrirhugaða sölu á hluta af eignarhluta ríkisins í Landsbankanum. Þar kemur meðal annars fram að svigrúm Landsbankans til arðgreiðslna gæti numið allt að 63,3 milljörðum króna, að mati Bankasýslunnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ef litið er til lausafjárstöðu bankans þá nemur svigrúm bankans 18,9 milljörðum, en þá upphæð gæti bankinn greitt í formi lausafjár eða afhendingu ríkisskuldabréfa. Vegna þess hve stert eiginfjárstaða bankans er þá gæti útgreiðsla arðs í öðru formi numið allt að 44 milljörðum króna. Slíkur arður gæti t.d. komið til í sölu eigna eða útgáfu skuldabréfa.

Útreikningar Bankasýslu ríkisins miða við stöðu bankans á þriðja ársfjórðungi. Gengið er út frá að lágmarks lausafjárhlutfall verði ekki lægra en 100% í kjölfar arðgreiðslu, hlutfall eiginfjárgrunns og áhættugrunns veðri ekki lægra en 21,8% og gjaldeyrisjafnaðarhlutfall verði innan 15% efrimarka og -15% neðri marka.