*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 23. ágúst 2018 17:25

630 milljón króna tap hjá Sjóvá

Sjóvá tapaði 630 milljónum á öðrum ársfjórðungi, en í tilkynningu eru tveir stórbrunar sagðir hafa sett mark sitt á fjórðunginn.

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Haraldur Guðjónsson

Sjóvá tapaði 630 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi, en hagnaðist samanlagt á fyrri helmingi ársins um 119 milljónir. Tapið skýrist af 680 milljón króna tapi af fjárfestingastarfsemi, en ávöxtun fjárfestingasafns félagsins var neikvæð um 1,3%.

Samsett hlutfall var 105,2%, samanborið við 100,3% á öðrum ársfjórðungi 2017. Horfur fyrir árið í heild eru að samsett hlutfall verði 98%: 94% á þriðja fjórðungi og 95% á þeim fjórða.

Þá er því spáð að hagnaður fyrir skatta verði um milljarður.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar: „Tveir stórbrunar setja mark sitt á afkomu 2. ársfjórðungs og þar með á 6 mánaða árshlutauppgjörið 2018. Samanlagt tjón af völdum þeirra vigtar um 10% í samsettu hlutfalli á fjórðungnum þegar tekið hefur verið tillit til hluta endurtryggjenda. Brunatjón af þessari stærðargráðu henda að jafnaði með nokkurra ára millibili en afar sjaldgæft er að tvö slík komi á einum og sama fjórðungi. Undanfarna fjórðunga hefur vátryggingarekstur þróast með jákvæðum hætti þar sem góður vöxtur er í iðgjöldum, eigin iðgjöld hafa vaxið umfram eigin tjón, að öðrum fjórðungi frátöldum. Sú þróun gerir það að verkum að áhrif þessara bruna á rekstur eru ekki eins mikil og annars hefði orðið.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi jákvæðum iðgjaldavexti á síðari helmingi ársins og að samsett hlutfall í lok árs verði um 98% í stað 96% eins og kynnt var í upphafi árs.

Tap félagsins á fjórðungnum er tilkomið vegna slæmrar afkomu af fjárfestingarstarfsemi og skýrist að langmestu leyti af tapi á hlutabréfasafni. Neikvæð þróun verðbréfamarkaða það sem af er ári veldur því að horfur um afkomu fyrir skatta eru færðar úr 2.800 m.kr. í 1.000 m.kr.

Eins og greint var frá við uppgjör 1. ársfjórðungs fengum við erlenda ráðgjafa til liðs við okkur til að móta stefnu í stafrænni þjónustu. Þeir hafa nú lokið störfum og þegar hefur verið hafist handa við að innleiða stefnuna. Fyrsti afrakstur þeirrar vinnu mun líta dagsins ljós á næstu vikum. Í allri nálgun og uppleggi þessarar vinnu eru þarfir viðskiptavina hafðar í forgrunni.“

Stikkorð: Sjóvá
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is