Austurland
Austurland
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Hagnaður af rekstri álrisans Alcoa, móðurfélags Fjarðaáls á Reyðarfirði, meira en tvöfaldaðist á milli ára á öðrum fjórðungi ársins. Samtals nam hagnaður fjórðungsins 322 milljónum dala eða um 28 sentum á hlut, sem bera má saman við 136 milljóna hagnað á öðrum fjórðungi ársins 2010 (13 sent á hlut). Er hlutfallsleg aukning því 138% á milli ára. Í tilkynningu frá Alcoa í Bandaríkjunum kemur fram að tekjur af sölu áls hafi aldrei verið hærri enda hefur verð náð hæstu hæðum á fjórðungnum auk þess sem eftirspurn eftir þessum létta og sveigjanlega málmi hefur aukist mikið. Haft er eftir Klaus Kleinfeld, hinum þýska forstjóra félagsins, að þótt efnahagsbatinn í heimshagkerfinu sé ójafn séu horfur í rekstri fyrirtækisins – og áliðnaðinum öllum – jákvæðar. „Eftirspurn eftir áli heldur áfram að aukast og hið sama á við um vöxt á helstu mörkuðum okkar,“ segir Kleinfeld. Jafnframt kemur fram í tilkynningu Alcoa að rekstur ársins sé vel umfram þau markmið sem sett voru í fyrra og að spáð sé auknum vexti á öllum mörkuðum. Á fyrstu sex mánuðum ársins hagnaðist Alcoa um 630 milljónir dala, 55 sent á hlut, en á sama tímabili í fyrra var 65 milljóna dala tap af rekstrinum, 6 sent á hlut.