Háskólinn í Reykjavík hefur tapað 630 milljónum á tveimur árum. Í ársreikningi skólans segir að hann muni áfram verða rekinn með tapi á þessu ári og er talið fyrirsjáanlegt að afkoman verði neikvæð til lengri tíma ef ekki verði breyting á fjárframlögum ríkisins til skólans.120 milljónir króna þarf á ári, næstu þrjú árin, til að tryggja rekstrarhæfi skólans í þeirri mynd sem hann er rekinn í dag.

Fjárframlög ríkisins til Háskólans í Reykjavík eru samtals um 450 milljón krónum lægri að raungildi nú en árið 2008. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið en þar haft eftir Ara Kristni Jónssyni, rektor skólans, að þessari þróun verði að snúa við fyrir árið 2013. Hann segir skólann hafa skorið umtalsvert niður á síðustu árum og þannig hafa getað haldið starfsemi áfram án þess að fórna gæðum námsins en telur þetta ekki getað gengið til lengdar.