Skipti hf., móðurfélag Símans skilar 3,3 milljarða króna hagnaði fyrstu 9 mánuði ársins 2007 en það er  viðsnúningur upp á 6,4 milljarða króna frá sama tímabili 2006.  Salan jókst um 6 milljarða króna á milli ára eða um  33%.

Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins var 3,3 milljarðar króna samanborið við 3,1 milljarða króna neikvæða afkomu fyrir sama tímabil árið 2006. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er 7,0 milljarðar króna eða 29%. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 7,0 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 35%. Fjarskiptafyrirtækið Business Phone í Danmörku var keypt í ágúst. Skipti hefur samþykkt kauptilboð í Fasteignafélagið Jörfa ehf.  frá Exista Properties og nemur söluhagnaðurinn 1,3 milljörðum króna eftir skatta.


Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans og Skipta hf. segir í tilkynningu: “ Afkoma samstæðunnar er mjög góð hvort sem horft er til starfseminnar í fjarskiptum eða upplýsingatækni. Skipti heldur áfram að fylgja þeirri stefnu að efla starfsemina erlendis. Kaup félagsins á danska fjarskiptafyrirtækinu  Business Phone í ágúst síðastliðinum eru liður í þeirri stefnu. Auk þessa hefur Skipti gert óbindandi kauptilboð í 49% hlut í slóvenska símafyrirtækinu Telecom Slovenije. Horfur í rekstri fyrir fjórða ársfjórðung þessa árs eru góðar. Skipti hefur samþykkt kauptilboð í Fasteignafélagið Jörfa ehf. frá Exista Properties og nemur söluhagnaðurinn 1,3 milljörðum króna eftir skatta. Undirbúningur fyrir skráningu Skipta á markað gengur vel og er stefnt að skráningu fyrir árslok.”

Sala á fyrstu 9 mánuðum ársins 2007 nam 23.612 m.kr. samanborið við 17.805 m.kr. árið áður, sem er 33% aukning. Þessi mikla hækkun skýrist að hluta til af tekjum frá Aerofone, Sirius IT, Sensa og Business Phone, sem eru ný fyrirtæki í samstæðunni. Einnig hefur sala á þjónustu Símans aukist í öllum þjónustuflokkum.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 3.838 m.kr. og jókst um 13% frá sama tímabili 2006.


Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 6.966 m.kr., miðað við 6.327 m.kr. árið áður. Það er aukning um 639 m.kr eða 10%. EBITDA hlutfallið er nú 29% samanborið við 35% árið áður. Skipti hefur á undanförnum misserum keypt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en sá markaður skilar að jafnaði lægra EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í fjarskiptageiranum en á móti eru fjárfestingar að jafnaði lægri í upplýsingatæknigeiranum.


Afskriftir félagsins námu 3.128 m.kr. yfir tímabilið samanborið við 2.921 m.kr. fyrir árið áður.
Afkoma eftir skatta var jákvæð um 3.291 m.kr. sem er um 14% af tekjum, samanborið við neikvæða afkomu upp á 3.144 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2006.  Þessi viðsnúningur skýrist fyrst og fremst af gengisþróun íslensku krónunnar, söluhagnaði af Fasteignafélaginu Jörfa og góðum rekstri félaga segir í tilkynningu.