Árið 2004 er það besta í sögu Straums Fjárfestingarbanka hf. Góður hagnaður og fjárfestingarstarfsemi bankans eflist en hagnaður eftir skatta á árinu 2004 var 6.404 milljónir króna samanborið við 3.815 milljónir króna árið 2003 og er það 68% hækkun. Hagnaður á 4. ársfjórðungi var 127 milljónir króna.

Hagnaður bankans fyrir skatta nam 7.745 milljónum króna og er það 95% aukning frá fyrra ári.

Hreinar rekstrartekjur námu 8.315 milljónum króna og jukust um 93% frá fyrra ári. Hreinar rekstrartekjur voru 345 milljónir króna á 4. ársfjórðungi samanborið við 1.689 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum var 5,94% á árinu og rekstrartekjur sem hlutfall af heildareignum 9,27%.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 34,5% samanborið við 39,0% árið 2003.

Heildareignir bankans námu 89.649 milljónum króna í árslok 2004 en voru 22.530 milljónir króna í árslok 2003 og hafa því vaxið um 298% á tímabilinu.

Eigið fé var 32.475 milljónir króna í lok ársins og var eiginfjárhlutfall á CAD-grunni 15,5%, þar af A-hluti 15,5%.

Útlán námu 25.946 milljónum króna í árslok 2004 og uxu því um 112% á 4. ársfjórðungi. Framlag í afskriftarreikning útlána nam 76 milljónum króna á árinu eða 1,22% af meðalstöðu útlána.

Lántaka bankans nam 32.108 milljónum króna í árslok 2004 og skuldir við lánastofnanir voru 21.569 milljónir króna.

Straumur Fjárfestingarbanki fékk starfsleyfi sem lánafyrirtæki í upphafi árs 2004.

Aðstæður á fjármálamarkaði voru mjög góðar á árinu 2004. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 58,9% á árinu, þrátt fyrir talsverða lækkun á fjórða ársfjórðungi en á því tímabili lækkaði vísitalan um 11,6%.

Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund, sem haldinn verður föstudaginn 4. febrúar næstkomandi, að hluthöfum verði greiddur 35% arður af nafnverði hlutafjár eða 1.890 milljónir króna vegna ársins 2004.

"Árið 2004 var mjög farsælt fyrir Straum Fjárfestingarbanka og einkenndist af uppbyggingu fjárfestingarbankastarfseminnar. Félagið skilaði sinni bestu afkomu frá upphafi, hagnaði upp á 6.404 millj. kr. Góður árangur í rekstri og hagstæð skilyrði á fjármálamarkaði skila bankanum og þar með 4.500 hluthöfum hans góðri afkomu og var arðsemi eigin fjár 34,5%. Fjárhagslegur styrkur bankans hefur aukist verulega en eigið fé Straums hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2004. Ásamt auknum fjárhagslegum styrk hefur fjárfestingarbankastarfsemin eflst verulega, auk þess sem tekjumyndun bankans hefur breikkað. Sókn Straums er fólgin í auknum umsvifum á fjármálamarkaði sem endurspeglast í kröftugum vexti bankans, ásamt eflingu starfsemi hans sem framsækins og alhliða fjárfestingarbanka," segir Þórður Már Jóhannesson, forstjóri Straums Fjárfestingarbanka í tilkynningu frá félaginu.