Lífeyrissjóðirnir gerðu nýja lánasamninga við sjóðfélaga sinna í nóvember fyrir ríflega 14,5 milljarða króna, sem er töluverð aukning frá því í september og október að því er Morgunblaðið greinir frá.

Í september námu nýir lánasamningar 9,9 milljörðum en í október fóru þeir upp í 12,4 milljarða, en útlánin í nóvember voru þau næst hæstu í sögu sjóðanna. Hæsta upphæð lánveitinga í einum mánuði var hins vegar í ágústmánuði síðastliðnum þegar þeir lánuðu 14,6 milljarða króna, en fyrir það höfðu lánveitingar einungis einu sinni farið yfir 14 milljarða.

Það var í júní þegar þær námu 14,3 milljörðum, en fram til marsmánaðar á síðasta ári höfðu ný lán til sjóðfélaga aldrei numið hærri upphæð en 10 milljörðum. Í heildina námu ný sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna fyrstu 11 mánuði síðasta árs 132,2 milljörðum, en árið 2016 var upphæðin 80,2 milljarðar. Um er að ræða 65% aukningu á milli ára.

Á sama tíma jókst fjöldi lántakenda, en milljarðarnir 132,2 skiptast á milli 6.965 lántakendum svo að meðaltali fær hver og einn tæplega 19 milljónir króna. Fyrstu 11 mánuði ársins 2016 voru hins vegar 5.130 að baki 80 milljörðunum sem lánað var út þá, svo meðalupphæðin þá nam 15,6 milljónum.

Fjölgun lántaka nemur því tæpum 36% og hækkun meðalupphæðarinnar nemur 21,5%.