Gott orðspor Íslands á sviði flotfræði og steinsteyputækni dregur að þátttakendur víðs vegar úr Evrópu, Asíu og Afríku auk Nýja-Sjálands og Bandaríkjanna á námskeið ICI Rheocenter, öndvegisseturs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í steinsteypufræðum sem haldið verður dagana 17. og 18 ágúst.

Samkvæmt tilkynningu er um að ræða tvö námskeið er að ræða sem 65 erlendir sérfræðingar frá 16 löndum sækja. Námskeiðið er til vitnis um hversu framarlega Ísland er á þessu sviði, en öndvegissetur Nýsköpunarmiðstöðvar býr yfir sérþekkingu og tækjabúnaði sem fáar aðrar alþjóðlegar rannsóknastofnanir geta státað sig af. Þátttakendur námskeiðanna á ICI Rheocenter munu m.a. fá leiðsögn við notkun á háþróuðum íslenskum mælitækjum sem notuð eru við rannsóknir og lagningu á steypu í yfir 40 löndum víða um heim.

Þriðjudaginn 18. ágúst kl. 9:15 til 11:00 mun hópurinn gera ýmsar mælingar og tilraunir á steypu með íslenskum tækjum. Námskeiðin á ICI Rheocenter eru haldin í tengslum við tvær samhliða ráðstefnur á sviði flotfræði (rheology) sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskólinn í Reykjavík skipuleggja í samstarfi við norræn og alþjóðleg samtök. Þátttakendur eru frá 27 þjóðum og öllum heimsálfum. 3rd Rilem International Symposium on Rheology of Cement Suspensions such as fresh Concrete fer fram dagana 19. til 21. ágúst á Grand Hótel og samhliða er haldin ráðstefnan 18th Nordic Rheology Conference.

Átak til markaðsfærslu á íslenskri þekkingu ICI Rheocenter sérhæfir sig í efnisfræði og flotfræði sementsbundinna efna. Setrið er liður í átaki til að markaðsfæra íslenska þekkingu á sviði flotfræði og steinsteypu erlendis.