65 fastráðnum starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) var sagt upp störfum í dag, 45 körlum og 20 konum. Fastráðnir starfsmenn Orkuveitunnar eru 566 og þeim fækkar um 11% við uppsagnirnar.

Uppsagnafrestur er þrír til sex mánuðir en starfsfólkinu verður strax leyst undan vinnuskyldu og hættir því strax. OR greiðir starfsfólki laun á uppsagnarfresti í samræmi við lög og skyldur þar af lútandi, að því er segir í tilkynningu. Að auki fær það viðbótargreiðslur sem miðast við starfsaldur viðkomandi hjá fyrirtækinu. Segir að engum sem orðinn er 65 ára hafi verið sagt upp störfum.

Uppsagnir ná til allrar starfsemi félagsins. Þeim sem sagt er upp eru skrifstofufólk, stjórnendur, sérfræðingar, iðnaðarmenn og verkamenn.

„Helgi Þór Ingason, sem tók við forstjórastarfi OR í ágúst síðastliðnum, segir að það sé bæði sárt og erfitt að sjá á bak fólki sem hefur starfað vel og lengi hjá OR. Staða fyrirtækisins sé hinsvegar þannig að óhjákvæmilegt sé að grípa til sársaukafullra aðgerða til að styrkja undirstöður rekstursins og verja um leið sjálfa kjarnastarfsemina. Í grunnþjónustunni hafi einnig orðið verulegur samdráttur verkefna.

Hagræðingin er liður í umfangsmiklum ráðstöfunum til að styrkja rekstur OR. Þannig hefur gjaldskrá verið hækkuð verulega og eigendur OR hafa ákveðið að fresta öllum arðgreiðslum frá fyrirtækinu. Þá er á dagskrá að selja eignir sem eru óviðkomandi kjarnastarfsemi OR.

Áður en til uppsagnanna kom hafði verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða. Bifreiðahlunnindi framkvæmdastjóra afnumin og laun þeirra lækkuð til samræmis við lækkuð laun forstjóra. Fækkað hefur um þriðjung í yfirstjórn OR með því að starf aðstoðarforstjóra og eins framkvæmdastjóra hafa verið lögð af. Nú skipa þrír framkvæmdastjórar yfirstjórnina ásamt forstjóra.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningunni.

Öllum sem sagt var upp störfum stendur til boða 100.000 króna styrkur til greiðslu náms- og námskeiðsgjalda til ársloka 2011, að því er segir í tilkynningu. OR samdi einnig við ráðningaþjóðnustu um vinnumarkaðsaðstoð og við sálfræðistofu um að aðstoða þá sem þess óska.