65.395 milljarðar íslenskra króna. Svo stór er Statens pensjonsfond, norski olíusjóðurinn, orðinn og er hann þar með kominn fram úr Abu Dhabi Investment Authority sem stærsti ríkisfjárfestingarsjóður heims. Þetta er í fyrsta skipti sem hinn risavaxni norski sjóður er stærsti sjóður heims en í hann renna tekjur norska ríkisins af olíuframleiðslu enda varast Norðmenn að fjárfesta of miklu í hagkerfinu af ótta við ofþenslu. Frá þessu greinir norski viðskiptavefurinn dn.no og vitnar í nýja skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Monitor Group.

Abu Dhabi Investment Authority hefur lengi verið stærsti sjóðurinn en vanhugsaðar fjárfestingar og mikil opinber útgjöld hafa rýrt hann að undanförnu segir dn.no.