Írska ríkisstjórnin seldi 5% hlut í bankanum Allied Irish Banks (AIB) fyrir 305 milljónir evra, eða nærri 43 milljarða króna, eftir lokun markaða á mánudaginn og fer nú með 63,5% hlut. Salan fór fram með tilboðsfyrirkomulagi líkt og stuðst var við í útboði Bankaýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum.

Söluverðið sem írska ríkið fékk fyrir 5% hlut í AIB í útboðinu á mánudaginn nam 2,28 evrum á hlut. Markaðsgengi bankans stóð í 2,44 evrum við lokun markaða á mánudaginn, áður en útboðið hófst. Verðfrávik í útboðinu miðað við síðasta dagslokagengi fyrir útboðið, eða það sem oft er kallað „útboðsafsláttur“, var því yfir 6,5%. Til samanburðar var frávikið 4,1% í tilviki Íslandsbankasölunnar.

Írska ríkið eignaðist bankann eftir að hafa komið honum til bjargar í fjármálahruninu árið 2008. Ríkið seldi 25% hlut í frumútboði árið 2017 og fékk þá 4,4 evrur á hlut.