Sviptingar voru á gjaldeyrismarkaði í gær og fór evran í 111 krónur þegar verst var. Krónan rétti sig af þegar leið á daginn en veiktist eigi að síður um 2,23% í gær. Mikil velta var á gjaldeyrismarkaði og nam hún 81,3 milljörðum kr. Greiningaraðilar töldu að meginskýring á þessu væri sú að í kjölfar frétta af vanda vogunarsjóða jókst áhættufælni fjárfesta mjög og áhugi á vaxtamunaviðskiptum minnkaði. Krónan hefur veikst um u.þ.b. 17% frá upphafi ársins.

Þegar nettóstaða í gjaldeyrisjöfnuði bankanna er skoðuð í gögnum Seðlabankans kemur í ljós að ríflega 650 milljarðar króna eru nú í framvirkri stöðu gagnvart krónunni. Á rúmum mánuði hefur þessi staða hækkað um ríflega 70 milljarða kr. og ef litið er til sama tíma á síðasta ári hefur hún hækkað um tæpa 410 milljarða króna.

Þessi staða gæti túlkað það að bankarnir séu nú með skortstöðu gegn krónunni. Á heimasíðu Seðlabankans má lesa að jákvæður gjaldeyrisjöfnuður bankanna jókst um tæpa 44 milljarða kr. í febrúar síðastliðnum en hann var 608 milljarðar kr. yfir mánuðinn. Það bendir til þess að bankarnir haldi fast utan um gjaldeyri núna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .