Ársskýrsla Landsvirkunar er komin út og líkt og í fyrra er árskýrslan , ásamt umhverfisskýrslu fyrirtækisins, aðeins gefin út á rafrænu formi. Í tilkynningu kemur fram að yfir 6.500 lesendur hafi heimsótt ársskýrsluna, sem gefin var út í fyrra, og voru síðuflettingar yfir 41 þúsund talsins. Áður var ársskýrsla fyrirtækisins aðeins prentuð í nokkur hundruð eintökum.

Í skýrslunni segir að eftirspurn eftir raforku á Íslandi fari vaxandi og framtíðarspár benda til að á næstu árum muni hún aukast enn frekar. Yfir 80% af þeirri orku sem Landsvirkjun vinnur er í raun flutt úr landi, t.d. í formi áls, kísiljárns og með þjónustu gagnavera sem knúin eru rafmagni. Segir í tilkynningunni að hærra raforkuverð hafi jákvæð áhrif á íslenskt samfélag á sama máta og þegar aðrar verðmætar útflutningsvörur, eins og sjávarafurðir, hækka í verði. Arðgreiðslugeta Landsvirkjunar til þjóðarbúsins hækki samhliða verðhækkunum á raforku.

Í skýrslunni er einnig fjallað um mögulega lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands og er vísað í rannsóknarskýrslu Hagfræðistofnunar HÍ frá 2013, þar sem sagði að sæstrengur gæti gert beinan útflutning á raforku mögulegan og skapað um leið umtalsverðan fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag. Segir í skýrslunni að frekar þurfi að rannsaka þjóðhagsleg og umhverfisleg áhrif framkvæmdarinnar og tryggja að opinská umræða eigi sér stað á Íslandi um niðurstöðurnar.