*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 26. ágúst 2021 14:52

659 milljóna tap hjá Íslandshótelum

Tekjur hótelkeðjunnar námu 1,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslandshótel töpuðu 659 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Hótelkeðjan tapaði 2,7 milljörðum króna á síðasta ári og hefur því tapað meira en 3,3 milljörðum á þeim fjárhagstímabilum þar sem afleiðinga Covid-faraldursins gætti.

Tekjur hótelkeðjunnar námu 1,9 milljörðum króna, samanborið við 2,2 milljarða á sama tíma í fyrra og 4,9 milljarða á fyrri helmingi ársins 2019. Rekstrargjöld lækkuðu um fjórðung milli ára og námu nærri 1,7 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld voru 886 milljónir á fyrri helmingi ársins en á sama tíma í fyrra voru þau 1,3 milljarðar.

Eignir Íslandshótela námu 50 milljörðum í lok júní síðastliðins. Handbært fé jókst um 125 milljónir frá áramótum og nam 557 milljónum króna.

Eigið fé nam 16,7 milljörðum í lok annars ársfjórðungs en til samanburðar var eigið fé hótelkeðjunnar 17,4 milljarðar um áramótin og 19,1 milljarður í árslok 2019. Skuldir félagsins jukust um 1,2 milljarða frá áramótum og námu 33,3 milljörðum í lok júní.

Ferðaþjónustan nái fyrri styrk árið 2023

„Covid-19 heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á ferðaþjónustuna og markast afkoma og rekstur Íslandshótela síðustu 16 mánaða af þeim aðstæðum og óvissu sem ríkt hefur. Ferðatakmarkanir og aðrar takmarkanir eru enn í gildi og því er ekki hægt að sjá hvenær eftirspurn eftir ferðalögum mun komast aftur í eðlilegt horf. Með bólusetningum á árinu hafa erlendir ferðamenn tekið við sér á nýjan leik, ef fram heldur sem horfir þá má gera ráð fyrir að ferðaþjónustan geti náð fyrri styrk árið 2023,“ segir í skýrslu stjórnar.

Fosshótel Reykjavík, stærsta hótel landsins með 320 herbergi, hefur verið lokað síðan takmarkanir vegna Covid-19 hófust eða frá 1. apríl 2020, ef undanskildir eru þeir mánuðir sem Sjúkratryggingar Íslands hafa haft afnot að hótelherbergjum frá því í apríl á þessu ári.

Íslandshótel hefur átt í lagadeilum við leigusala sinn, Íþöku fasteignir, vegna leigu á Fosshótel Reykjavík. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjaness í mars en dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að víkja leigusamningi aðila að hluta. Íþaka óskaði þess að áfrýja dómnum beint til Hæstaréttar og var sú beiðni samþykkt.

Stikkorð: Íslandshótel