Skráð atvinnuleysi í janúar 2009 var 6,6% eða að meðaltali 10.456 manns og eykst atvinnuleysi um 32% að meðaltali frá desember eða um 2.554 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en atvinnuleysi hefur ekki verið jafn mikið frá því í janúar árið 1995 en þá var atvinnuleysi 6,8%.

Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.545 manns.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 11,6% en minnst á Vestfjörðum 1,6%.

Atvinnuleysi eykst um 34% á höfuðborgarsvæðinu og um 30% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst um 32% bæði meðal karla og kvenna. Atvinnuleysið er 7,5% meðal karla og 5,4% meðal kvenna.

Nú eru 14.483 skráðir á atvinnuleysisskrá.

Sjá nánar vef Vinnumálastofnunar.