66° Norður hyggst opna sérverslun í miðborg London í haust og verður það fyrsta verslunin sem fyrirtækið rekur utan Íslands og Danmerkur. Auk þess stefnir fatamerkið á að opna verslun við Austurhöfn um miðjan næsta mánuð.

„Við sjáum verslunina í London fyrir okkur sem flaggskipsbúð okkar í Evrópu. London er mjög mikilvæg borg í smásölu, sérstaklega í tískuheiminum. Við erum búin að selja vörurnar okkar í London í gegnum endursöluaðila í mörg ár en núna erum við tilbúin að stíga skrefið að fullu,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66° Norðurs, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir netverslun og viðskipti breskra ferðamanna hér á landi gefa til kynna að viðskiptamannagrunnur 66° Norðurs í Bretlandi sé traustur. Einnig hafi félagið átt í samstarfi við breska aðila. Helgi er því bjartsýnn á að 66° Norður verði vel tekið í London.

Fyrirtækið opnaði sínar fyrstu verslanir fyrir utan landsteinana með tveimur sérverslunum í Danmörku árin 2014 og 2015. Að sögn Helga gekk reksturinn í Danmörku mjög vel áður en loka þurfti búðunum vegna sóttvarnartakmarkana í Covid-faraldrinum.

„Við erum sem betur fer komin út úr því ástandi og farin að sjá ferðamenn aftur í Danmörku. Við erum komin aftur á beinu brautina.“

Spurður um hvort áform séu uppi um frekari útrás, svarar Helgi að fyrirtækið einblíni nú á opnunina í London. „Við tökum eitt skref í einu. Þetta veltur alltaf á hvernig hlutirnir ganga. Það er búin að vera mikil þróun í smásöluverslun, m.a. með aukinni sölu á netinu. Við erum því alltaf að meta þetta að hverju sinni út frá þeim breytingum sem eru að verða á markaðnum.“

Opna við Austurhöfn í júní

66° Norður mun einnig opna sína elleftu verslun á Íslandi í 300 fermetra húsnæði við Austurhöfn. Stefnt er að því að opna þá verslun um miðjan júní næstkomandi.

„Við fylgjumst með hvernig dýnamíkin er að breytast í miðborg Reykjavíkur. Við teljum að þessi staðsetning henti okkur mjög vel. Þarna verðum við með Hörpuna, Edition-hótelið og nýju höfuðstöðvar Landsbankans í kringum okkur. Það verður því skemmtileg blanda af Íslendingum og erlendum ferðamönnum á svæðinu.“

Sjá einnig: Sjó­klæða­gerðin seldi fyrir 4,8 milljarða

Fatamerkið mun því reka þrjár verslanir í miðbæ Reykjavíkur en fyrir var það með verslun við Laugaveg 17-19, sem opnaði árið 2016, og Bankastræti 5. Helgi segir engin áform vera uppi um að loka hinum verslununum.

Ómetanlegur samstarfsaðili

Sjóklæðagerðin, móðurfélag 66° Norðurs, er að meirihluta í eigu Helga Rúnars og eiginkonu hans Bjarneyjar Harðardóttur, sem gegnir stöðu yfirmanns vörumerkis. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Mousse Partners Limited, sem er stýrt af fjölskyldunni sem á tískuhúsið Chanel, keypti tæplega helmingshlut í félaginu árið 2018.

„Hann er frábær samstarfsaðili og hefur mikla reynslu af því að byggja upp vörumerki í okkar geira. Það hefur verið alveg ómetanlegt að fá hann inn sem samstarfsaðila í þetta verkefni okkar.“

Helgi segir að sjóðurinn hafi reynst 66° Norður gríðarlega vel enda sé hann með góð sambönd. Það hjálpi verulega við opnun verslana á stórum erlendum mörkuðum. „Það léttir lífið mikið fyrir fyrirtæki sem kemur frá Íslandi.“