Ný sérverslun í eigu 66°Norður verður opnuð í Kaupmannahöfn um mánaðamótin. Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri fyrirtækisins, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. „Verslunin verður við Sværtegade 12, skammt frá Illum,“ segir Helgi Rúnar. „Þetta er verslunarhverfi með skemmtilegum sérverslunum og við erum í rauninni bara að planta okkur inn í þá flóru. Verslunin verður í okkar eigu og rekin af okkur. Verslunin verður um 130 fermetrar eða svipað stór og verslunin í Bankastræti.“

66°Norður rak um tíma verslanir í verksmiðjum sínum Lettlandi en því var hætt. Verslunin í Kaupmannahöfn er því í raun fyrsta sérverslun 66°Norður fyrir utan landsteinana. „Við höfum reyndar selt okkar vörur í heildsölu í Danmörku í mörg ár en núna erum við að fara inn á þennan markað með mjög markvissum hætti í þeim tilgangi að byggja upp okkar vörumerki.“

Helgi Rúnar segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort aðrar sérverslanir verði opnaðar erlendis. Fyrst verði að sjá hvernig þessi nýja verslun í höfuðstað Danaveldis muni ganga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .