Ný verslun undir merki íslenska fataframleiðandans 66° Norður verður opnuð í Kaupmannahöfn um næstu mánaðamót. Um líkt leyti verður þriðja verslunin undir merkjum félagsins opnuð í Vilníus í Lettlandi. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn Kára Þórs Rúnarssonar, markaðsstjóra 66° Norður, hefur búðin í Kaupmannahöfn verið í undirbúningi um nokkurn tíma en hún verður opnuð 1. september og verður við Nörrebro. Þetta er fyrsta verslun undir merkjum 66° Norður í Skandinavíu en félagið rekur sjö verslanir hér á Íslandi auk þess sem það rekur þrjár verslanir í Lettlandi og eina í Litháen. Allar verslanir félagsins utan Íslands eru reknar með sérleyfisfyrirkomulagi (e. franchise). Samfara verslanarekstri rekur félagið umfangsmikla hönnunar- og framleiðsludeild.

Að sögn Kára verður verslunin í Kaupmannahöfn talsvert ólík þeim verslunarrekstri sem fer fram hér og verður meiri áhersla lögð á tískuhliðina þar en hér á landi er lögð áhersla á útivistarfatnað öðru fremur. Kári sagði að búðin í Nörrebro mótaðist af þessu, þar væri lögð áhersla á meira sjálfstæði, jafnvel hráleika. Það kemur kannski af sjálfu sér þar sem húsnæðið hýsti áður sláturhús. "Það er sótt í það í hönnuninni og sumar flíkurnar eru hengdar upp á krókum og húsið er skreytt með rauðri málningu," sagði Kári.

Samfara þessu hefur félagið gert þær breytingar á starfsemi sinni í Bandaríkjunum að taka dreifingarmálin alfarið í sínar hendur. Að sögn Kára fæst þannig betra vald á öllu sem viðkemur sölu- og markaðsmálum.