Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2010 lækkaði um 0,3% frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en 12 mánaða verðbólga mælist því 6,6% í janúar og lækkar úr 7,5% frá því í desember.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun verðbólgu sl. 5 ár. Þar sést hvernig verðbólgan náði hámarki, 18,6%, í janúar á þessu ári en hefur síðan þá farið nokkuð hratt niður á við ef undan er skilin hækkun í júní. Þá hefur verðbólga nú ekki verið lægri í tæp í tæp tvö ár.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að verð á fötum og skóm lækkaði um 10,1% en það má rekja til þess að vetrarútsölur eru nú í fullum gangi. Þá lækkaði verð á húsgögnum og heimilistækjum um 3,8%. Þá lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 21,3%.

Verð á bensíni og díselolíu hækkaði aftur á móti um 5,7% vegna nýrra skattahækkana og verð á áfengi og tóbaki hækkaði um 6,3% af sömu ástæðum. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1% og þá  hækkaði verð á rafmagni og hita um 4,3%.

Sem fyrr segir hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,6% s.l. 12 mánuði en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 10,9%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,7% verðbólgu á ári (6,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).