COVID-19 faraldurinn hefur leitt til þess að um 660 þúsund störf hafa glatast í breska þjónustugeiranum. Þjónustugeirinn var sá þriðji stærsti í Bretlandi í lok síðasta árs. Gert hafði verið ráð fyrir að geirinn myndi að jafnaði skapa um sjötta hvert nýja starf innan Bretlands en vegna faraldursins hefur störfum innan geirans aftur á móti fækkað um 20%. BBC greinir frá.

Þá hafa tekjur þjónustugeirans dregist saman um 40% hingað til á þessu ári, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Kate Nicholls, formaður samtaka utan um þjónustugeirann innan Bretlands, bendir á að blómaskeið fyrirtækja í þjónustugeiranum sé einmitt tímabilið sem nær frá hrekkjavökunni og fram að áramótum. Umrætt tímabil standi undir um þriðjungi tekna geirans á ári hverju.

Nú þegar hálfgert útgöngubann ríki innan Bretlands sé staðan allt önnur og því hvetur Kate yfirvöld til að gera allt í sínu valdi til að reyna að halda veitingastöðum og öldurhúsum opnum með eins litlum takmörkunum og öruggt sé.