Á fjórða ársfjórðungi árið 2007 nam tekjuafgangur hins opinbera 17,8 milljörðum króna samanborið við 23,7 milljarða króna á sama tíma 2006. Sem hlutfall af landsframleiðslu var tekjuafgangurinn 1,4% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 11,2%.

Á árinu sem heild nam tekjuafgangurinn 66,6 milljörðum króna eða 5,2% af landsframleiðslu og 10,8% af tekjum. Til samanburðar var tekjuafgangur hins opinbera 2006 73,8 milljarðar króna eða 6,3% af landsframleiðslu og 13,2% af tekjum. Þetta kemur fram hjá Hagstofu Íslands.

Tekjur hækka um 10%

Heildartekjur hins opinbera á árinu 2007 námu 617,5 milljörðum króna og hækkuðu um ríflega 10% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 48,3% samanborið við 48,0% árið 2006.

Heildarútgjöld hins opinbera námu hins vegar um 551 milljarði króna eða 43,1% af landsframleiðslu og hækkuðu um 13,2% frá árinu 2006. Fjárfesting hins opinbera var um 55 milljarðar króna 2007 og hækkaði verulega milli ára eða um 20%.

Tekjuafkoma ríkissjóðs og almannatrygginga var jákvæð um 16,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2007 samanborið við 22,4 milljarða króna árið áður og um 60,6 milljarða króna á árinu öllu samanborið við 70,1 milljarð króna árið 2006.

Tekjuafkoma sveitarfélaganna var einnig jákvæð á 4. ársfjórðungi 2007 eða um 1,2 milljarða króna og því hagstæðari en á sama tíma 2006. Áætlað er að sveitarfélögin skili 5,9 milljarða króna tekjuafgangi á árinu 2007 samanborið við 3,8 milljarða króna 2006.