Rekstrartekjur Árvakurs, móðurfélags Morgunblaðsins, drógust saman um einn milljarð króna á árinu 2009.

Rekstrartap Árvakurs, móðurfélags Morgunblaðsins, var 667 milljónir króna á árinu 2009. Rekstrartekjur félagsins, sem koma meðal annars frá áskrifta- og auglýsingasölu, drógust saman um tæpan milljarð króna á milli áranna 2008 og 2009. Þetta kemur fram í ársreikningi Árvakurs sem skilað var til ársreikningaskrár síðastliðinn mánudag.

Lán færð niður um 4,6 milljarða

Samkvæmt ársreikningnum er hagnaður ársins 2,5 milljarðar króna þrátt fyrir rekstrartapið. Hagnaður ársins útskýrist að langmestu leyti af niðurfærslu skulda upp á 4,7 milljarða króna. Í skýringum reikningsins segir: „Þann 1. apríl tóku nýir hluthafar við rekstri samstæðunnar og samhliða því var farið í endurfjármögnun skulda hennar. Samkomulag var gert við lánardrottna um niðurfellingu á hluta af skuldum samstæðunnar. Lán við Íslandsbanka var endurfjármagnað. Þessi skuldbreyting hafði í för með sér tekjufærslu í samstæðureikningi.“

Skuldir Árvakurs lækkuðu um 3,5 milljarða króna milli ára og standa nú í um 2,3 milljörðum króna. Því er ljóst að skuldaniðurfærsla samstæðunnar er bókfærð sem tekjur í ársreikningi og útskýrir hagnað ársins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .