66°Norður og danska kvenfatamerkið Ganni kynntu samstarf sitt á tískuvikunni í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöld, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sjóklæðagerðinni. Þar segir að um sé að ræða fjórar flíkur sem fara í sölu vorið 2019 sem voru sýndar á tískusýningu Ganni í tilefni sumarlínu þeirra. Flíkurnar fjórar samanstandi af tveimur tæknilegum útivistarjökkum, regnjakka og vesti. Hönnunarteymi 66°Norður og Ganni hafi unnið saman að línunni og innblástur verið sóttur í vörulínu og sögu 66°Norður. Allar vörurnar eigi það sameiginlegt að vera úr tæknilegum efnum og framleiddar í verksmiðjum 66°Norður.

„Ég elska að vinna með andstæður, það er hluti af okkar DNA, og það að vinna með 66°Norður við að búa til tæknilegan fatnað úr tæknilegum efnum gefur sumarlínu okkar skemmtilega og nýja vídd“ sagði Ditte Reffstrup, listrænn stjórnandi Ganni.

Vörurnar úr samstarfinu eru sagðar hafa vakið mikla athygli á tískusýningunni en Ganni tefldi fram jakka úr samstarfinu í opnun sýningarinnar og lauk sýningunni sömuleiðis með jakka úr samstarfinu við 66°Norður.

Þá er Ganni sagt hafa getið sér gott orð undanfarin ár og vera orðið eitt stærsta sinnar tegundar í Danmörku.