Sjóðklæðagerðin, 66°Norður, hefur stefnt KPMG vegna ráðgjafar um öfugan samruna sem gerður var árið 2006. Þetta staðfestir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar. Fyrirtækið fer fram á tæpar 215 milljónir króna auk vaxta í skaðabætur. Algengt var á árum áður að fjárfestar stofnuðu nýtt félag sem keypti allt hlutafé í því félagi sem fjárfestar höfðu áhuga á. Kaupin voru síðan fjármögnuð með lántöku móðurfélagsins og í kjölfarið voru félögin tvö sameinuð með öfugum samruna. Með þessu var hægt að draga vaxtagjöld frá tekjuskattsstofni og lækka þannig skattgreiðslur. Ríkisskattstjóri gerði síðan athugasemd við þessa aðferð árið 2012 og endurákvarðaði skatt á þessi fyrirtæki og lagði ofan á 25% álag.

Sjóklæðagerðin segir KPGM hafa veitt ráðgjöf við þennan samruna og hafa talið samrunann ekki rýra möguleika hins sameinaða félags til að standa við skuldbindingar sínar, sem síðar reyndist vera rangt. Hækkun á skattgreiðslum Sjóklæðagerðarinnar námu tæpum 215 milljónum. Þar af voru 192 millj- ónir greiddar í byrjun árs 2014 og í lok árs aðrar 23 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem má nálgast hér .